Símatími

Mán - þri kl. 10-13

Hafa samband

heimilin@heimilin.is

Á döfinni

Umræðufundur um stöðu heimilanna - upptaka

Hagsmunasamtök heimilanna stóðu fyrir umræðufundi um stöðu heimilanna í Iðnó snemma á árinu. Samtökin kölluðu til opins fundar og pallborðsumræðu baráttufólks fyrir bættum fjárhag heimilanna í efnahagslegum ólgusjó, þá ekki síst í húsnæðismálum. Fundurinn var tekinn upp og hér vill stjórn samtakanna deila upptökunni með félagsmönnum, velunnurum og samstarfsfólki á YouTube rás samtakanna. Efni fundarins var meðal annars hæg uppbygging hagkvæmra íbúða fyrir almenning og leigumarkaður sem er sannarlega ekki leigjendavænn. Síðast en ekki síst var rætt um verðtryggingu lána og slæma stöðu lántakenda í íbúðakaupum sem standa frammi fyrir sífelldum hækkunum á greiðslubyrði vaxta og oftar en ekki höfuðstóls þar að auki.  Fyrirhyggju með almannahag að leiðarljósi skortir og hefur lengi skort í þessum málaflokkum. 

Lesa áfram...

Verðtryggt lán eða vanskil?

Hagsmunasamtök heimilanna fordæmdu nýlega fjórtándu vaxtahækkun seðlabankans í röð og áréttuðu að ekkert réttlætti sífelldar árásir á heimilin. Aukin greiðslubyrði fasteignalána hefur verið mörgum heimilum allt of þungur baggi og því hafa lánþegar nú streymt yfir í verðtryggð fasteignalán. Fjölmargir íbúðarkaupendur neyðast því til þess að grípa til þessarar ráðstöfunar, til þess eins að vera í skilum. Húsnæðisöryggi er í húfi. 

Lesa áfram...

Ekkert réttlætir sífelldar árásir á heimilin

Yfirlýsing frá stjórn samtakanna

Hagsmunasamtök heimilanna fordæma fjórtándu vaxtahækkun Seðlabankans í röð og lýsa yfir áhyggjum af afdrifum heimila sem ekki standa undir sífelldum vaxtahækkunum. Greiðslubyrði húsnæðislána hefur margfaldast og eina „lausn“ margra heimila er að flýja yfir í verðtryggð lán í von um skjól.

Verðtryggð lán veita eingöngu tímabundið svikaskjól en það mun hverfa áður en langt um líður og þá munu tugþúsundir heimila standa á berangri, varnarlaus fyrir ásókn banka, sem eins og dæmin sanna munu ekki hika við að hirða af þeim húsnæðið og senda þau á götuna.

Lesa áfram...

Svört skýrsla um áhrif verðtryggingar fæst ekki birt

Þingmaður Flokks fólksins vitnaði í svarta skýrslu sem ekki hefur fengist birt, í ræðu sinni á Alþingi í gær. Umrædd skýrsla var skrifuð af Dr. Ólafi Margeirssyni hagfræðingi og Jacky Mallett, lektor við Háskólann í Reykjavík, samkvæmt beiðni tólf þingmanna úr fimm flokkum. Þau skiluðu skýrslunni til félagsmálaráðuneytisins í júní í fyrra en hún hefur ekki enn fengist birt, þrátt fyrir ítrekaða eftirgrennslan Hagsmunasamtaka heimilanna.

Þingmanninn Ásthildi Lóu Þórsdóttur, sem einnig er formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, þraut þolinmæðin í gær og ákvað hún að kunngjöra tilvist skýrslunnar og vitna í kafla hennar um áhrif verðtryggingarinnar á heimilin og hagkerfið.

Samkvæmt því sem Ásthildur Lóa sagði í ræðu sinni er ljóst að skýrslan er óþægileg fyrir stjórnvöld sem hafa varið verðtryggingu á lánum heimilanna með kjafti og klóm, þrátt fyrir loforð um annað. 

Einnig mælti þingmaðurinn fyrir rétti neytenda til að breyta úr verðtryggðum lánum í óverðtryggð en í þeirri ræðu komu fram sláandi niðurstöður sem sýna svart á hvítu hve mikil áhrif 3,4% hækkun verðbólgu frá ársbyrjun hefur haft á verðtryggð lán.

Almenningur á rétt á að sjá þessa skýrslu, ekki síst þegar litið er til þess hvernig fjármála- og efnahagsráðherra hefur ítrekað vísað til verðtryggðra lána sem „lausnar“ fyrir lántakendur sem ekki ráða við gríðarlegar vaxtahækkanir undanfarinna mánaða.

Þau eru ekki lausn, heldur gildra!

Hagsmunasamtök heimilanna

Lesa áfram...

Fátækragildra verðtryggðra lána

Í síðasta tölublaði Stundarinnar (September 2022) var fjallað um áhrif vaxtahækkana á lántakendur og viðhorf þeirra og sérfræðinga til stöðunnar á húsnæðismarkaði. Í umfjöllun Stundarinnar koma fram sjónarmið sem að jafnaði eru ekki ofarlega í umræðu um húsnæðismál eða verðtryggð lán. Úttekt Stundarinnar gefur innsýn í fjárhagslegt og félagslegt misrétti sem lítið sem ekkert hefur verið fjallað um hingað til, en Hagsmunasamtök heimilanna þekkja mætavel.

Aldrei aftur verðtryggt lán

Það kemur þeim hagfræðingum sem Stundin ræddi við ekki á óvart að lántakendur haldi tryggð við óverðtryggð lán þrátt fyrir miklar hækkanir vaxta. Heilt yfir er það mat sérfræðinganna sem Stundin ráðfærir sig við að fólk sé að halda í óverðtryggð lán í lengstu lög og því hafi færri fært sig yfir í verðtryggð lán en kannski mátti búast við. Staðan gæti þó breyst og lántakendur gætu í auknum mæli þurft að færa sig yfir í verðtryggð lán, til að létta greiðslubyrðina (tímabundið).

Skýr samhljómur virtist vera meðal viðmælenda, bæði sérfræðinga og leikmanna um að verðtryggð lán séu lakasti kosturinn í íbúðarkaupum.

Lesa áfram...

Aðgerðir og aðgerðaleysi gagnvart verðbólgu

Umsögn til Alþingis

Hagsmunasamtaka heimilanna hafa sent frá sér umsögn við frumvarp ríkisstjórnarinnar um mótvægisaðgerðir í verðbólgu. Með frumvarpinu leggur ríkisstjórnin til að bætur almannatrygginga hækki um 3% og húsnæðisbætur um 10%, auk þess að greiddur verði sérstakur barnabótaauki að fjárhæð 20.000 kr. með hverju barni til þeirra sem fá tekjutengdar barnabætur. Frumvarpið verður lagt fram í mánuðinum og með samþykki þingsins taka þessar hækkanir gildi 1. júní. 

Fulltrúar samtakanna voru kölluð til samráðs á fjarfundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, með fulltrúum Öryrkjabandalagsins og Leigjendasamtökunum.  

Hagsmunasamtök heimilanna eru fylgjandi þessum mótvægisaðgerðum en vöktu sérstaka athygli á því í umsögn sinni og á fundi efnahags- og viðskiptanefndar að engar aðgerðir hafa verið kynntar af hálfu ríkisstjórnarinnar sem gagnast útivinnandi fólki í eigin húsnæði.

Lesa áfram...

Verðtryggð lán eru aldrei hagstæð

Í desembermánuði sendu samtökin frá sér aðvörun til neytenda vegna aðgerða og yfirlýsinga Íslandsbanka um verðtryggð lán. Formaður Hagsmunasamtaka heimilanna varaði við áróðursherferð bankans í Reykjavík síðdegis, þar sem fjallað er um verðtryggð lán sem samkeppnishæfan valkost við óverðtryggð lán eftir lækkun vaxta. Samtökin fordæma yfirlýsingar sem eru til þess fallnar að blekkja neytendur, því verðtryggð lán eru aldrei hagstæðari valkostur í samanburði við óverðtryggð lán. Verðtryggð lán eru einfaldlega aldrei hagstæð. Þau fordæma ekki síður umfjöllun í Viðskiptablaðinu um hlýjan faðm verðtryggingarinnar frá 12. desember, þar sem gefið er í skyn að verðtrygging lána gefi heimilum öryggi sem hægt sé að líkja við hlýjan faðm. Samlíkingin er liður í áróðursherferð bankans.

 

Hér geta félagsmenn og aðrir hlustað á viðtal við formann HH í Reykjavík síðdegis:

Hagsmunasamtök heimilanna fordæma boð banka í hlýjan faðm verðtryggingarinnar

 

Fréttatilkynning samtakanna frá 15. desember, 2021:

Aðvörun til neytenda vegna vaxtabreytinga Íslandsbanka

 

Umfjöllun í Viðskiptablaðinu um verðtryggð lán:

Hlýr faðmur verðtryggingarinnar

 

 

Lesa áfram...

Aðvörun til neytenda vegna vaxtabreytinga Íslandsbanka

Fréttatilkynning 15. desember 2021

Hagsmunasamtök heimilanna fordæma aðgerðir og yfirlýsingar Íslandsbanka sem eru til þess gerðar að blekkja neytendur til að velja eða skipta yfir í verðtryggð lán að nýju. Neytendur skulu hafa það í huga að bankar eru almennt ekki með hagsmuni neytenda í huga heldur eru hagsmunir þeirra sjálfra og þeirra fjárfesta, ávallt í forgrunni. Í hartnær fjörtíu ár hafa bankarnir makað krókinn á verðtryggðum lánum heimilanna sem hækka og hækka í allt að 25 ár þrátt fyrir að samviskusamlega sé greitt af þeim. 

Eftir þann tíma tekur höfuðstóll lánanna svo smám saman að lækka, hafi lántakandi yfirleitt ráðið við hækkandi afborganir fram að því. En jafnvel þá hækka afborganir áfram í veldisvexti því aðeins þannig næst að greiða niður stórhækkaðan höfuðstól á tilskildum tíma.

Lesa áfram...
Subscribe to this RSS feed

© Hannað af Filmís 

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð 15. janúar 2009 og eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasviði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Orð frá formanni

CEO 

Orð frá formanni Varlega áætlað hafa 15.000 fjölskyldur, 45.000 einstaklingar misst heimili sín frá hruni. Enginn hefur svarað fyrir það, hvað þá axlað á því ábyrgð. 

Þegar 15% þjóðarinnar missa heimili sín, gætir áhrifanna víða. Við sjáum þau í ástandinu á leigumarkaði og við sjáum þau líka í auknum kvíða meðal ungmenna og kulnun hjá þeim sem eldri eru.

Þegar fólk er svipt heimilum sínum glatar það öryggi sínu sínu og fótfestu. Þegar við bætist magnvana reiði og örvænting vegna óréttlætisins sem það stendur frammi fyrir ásamt hjálpar- og varnaleysinu sem það upplifir þegar heimilinu er hreinlega stolið af því, er ekki nema von að eitthvað láti undan.

Spillingin í þjóðfélaginu er djúp og hún á sér margar hliðar. Hún birtist ekki bara í háu húsnæðisverði og skelfilegum leigumarkaði eða háum vöxtum og verðtryggingu, hún birtist ekki bara í því hvernig lífeyrissjóðirnir misfara með fé okkar allra eða í „krónu á móti krónu“ skerðingu, hún birtist ekki bara í lágum launum verkafólks á meðan sjálftökufólk af ýmsum toga skammtar sjálfu sér milljónir, hún birtist ekki bara í spilltum dómstólum sem gæta hagsmuna „hinna sterku“ í dómum sínum eða í því hvernig lög- og stjórnaskrárvarin réttindi hafa verið brotin á neytendum frá hruni með skelfilegum afleiðingum.

Nei, hún birtist í þessu öllu og meiru til. Spillingin er djúp og teygir anga sína víða. Hana þarf að rífa upp með rótum til að hægt sé að byggja upp nýtt og betra þjóðfélag.

Fyrsta skrefið væri að að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna! Öðruvísi er ekki hægt að skapa eðlilegan húsnæðismarkað eða stöðva sjálftöku fjármálastofnanna á tekjum fólks.

En til að takast á við ræturnar þarf að fara fram rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Jú það var líka spilling fyrir hrun, en þá urðu ákveðin vatnaskil og það var þá sem meðvituð ákvörðun var tekin um að fórna heimilum landsins fyrir bankana.

15.000 heimili eiga skilið að fá svör og uppreist æru.

Við biðjum ykkur um að styðja kröfuna um Rannsóknarskýrslu heimilanna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
Formaður HH

Fylgstu með á samfélagsmiðlum